Heimildarmyndin „Hafsins börn“ fjallar um tvær ferðir íbúa vinabæjanna Vestmannaeyja á Íslandi og Götu í Færeyjum. Um 100 manna hópur Vestmannaeyinga fór í nokkurra daga ferð til Færeyja í apríl 2012 og álíka hópur Færeyinga kom til Vestmannaeyja í september 2012.

Færeyingarnir sýndu einstaka gestrisni með því að hýsa 100 Eyjamenn inn á heimilum sínum, en einungis um 1200 manns búa í Götu. Vinabæjasamband bæjanna á sér langa sögu og í myndinni er fylgst með hvernig fólk tengist sterkum böndum á aðeins nokkrum dögum, flestir voru að hitta fólkið sem þeir gistu hjá í fyrsta sinn.

Vestmannaeyingarnir héldu þrenna tónleika í Færeyjum og spiluðu víðar á óformlegum samkomum, meðal annars á dvalarheimili aldraðra í Götu. Þar býr fyrrverandi sjómaður sem rætt er við í myndinni en hann var til sjós í Eyjum fyrir nokkrum áratugum. Þá er sögð saga hins færeyska Martin Juul sem veiddi sinn fyrsta þorsk á Íslandsmiðum. Martin kom fyrst til Vestmannaeyja á sjötta áratug síðustu aldar er hann var „á sjó á Sæfara með Sigga Þórðar,“ eins og Martin segir sjálfur frá.